SVEFNSTÖÐUR

Svefnstöður

Góður nætursvefn er nauðsynlegur partur af heilsusamlegu lífi, og þar getur góð svefnstaða spilað stóru hlutverki fyrir þá sem glíma við bakverki. Hryggjarsúlan okkar er uppbyggð úr 24 hryggjarliðum og brjóskþófum, sem eru aðallega myndaðir úr vatni. Þegar við sofum virkar diskarnir eins og svampar sem soga til sín vatn og næringu. Þetta ferli er mikilvægt svo brjóskið haldist heilbrigt og er ástæðan fyri að við mælumst sirka 1 cm hærri á morgnanna en á kvöldin. Einfaldlega vegna þess að hryggjarsúlan sem heild er lengri.

Yfir daginn virka diskarnir eins og demparar sem að bæði halda okkur uppi og hjálpa hryggnum að hreyfast sem ein heild. Við að vera uppréttur og á hreyfingu yfir daginn missa diskarnir bæði vatn og næringu. Þetta er hringrás sem við förum í gegnum alla daga og þess vegna er gott að vera meðvitaður um eigin líkamsstöðu þegar við sofum.

Hér eru 3 algengustu svefnstöðurnar:

  1. Rannsóknir sína að liggja á bakinu býr til náttúrulega stöðu fyrir hrygginn. Enn betra er að hafa eitthvað undir hnjánum til þess að taka alla spennu af bakinu og getur komið í veg fyrir hreyfingu yfir nóttina.
  2. Að sofa á maganum er ekki góður kostur sem hefur í för með sér snúning á hálsliðunum, sem til langstíma getur myndað skekkju. Auk þess ná bakvöðvarnir ekki að slaka á og hindrar að brjóskið nái að soga til sín nóg af næringu og vatni. Margir hverjir eru líka með aðra löppina uppi sem býr til aukið álag á bæði mjöðm og mjóbak.
  3. Að sofa á hlið er skárra en á maganum ef það er gert rétt. Með púða undir hausnum svo að hálsinn sé í náttúrulegri stöðu. Til þess að koma í veg fyrir snúning á mjóbaki eða mjöðm mælum við með með einhverskonar púða milli hnjánna.

Við eyðum um það bil þriðjung af lífsleiðinni okkar sofandi eða í hvíld til að endurheimta allt það álag og streitu sem lífið hefur uppá að bjóða. Því er mikilvægt að við reynum að fá það besta út úr svefninum og velja sér góða svefnstöðu.

Máni Þór Valsson
Kírópraktor