Það getur verið mjög gagnlegt að nota hita eða kulda við ýmsar aðstæður til að hafa áhrif á sársauka sem við upplifum.
Rétta spurningin er hins vegar frekar; Hvenær er kuldi viðeigandi og hvenær hentar betur að nota hita?
Í stuttu máli er oft miðast við að nota kulda við bráð tilfelli, bólgur oþh. Hiti getur verið betri við vöðvaverkjum og stífleika.
Hvað gerir hitinn fyrir svæðið sem er verkjað?
Þegar hitinn í líkamanum eykst, þá eykst blóðflæðið, sem verður til þess að vöðvinn slaknar og verður þá aukin liðleiki. Með auknu blóðflæði, þá komast næringarefnin hraðar á meiðslasvæðið og stuðlar að uppbyggingu og endurheimt. Þó ber að minnast á það, að hreyfing á meiðslasvæðinu skiptir líka miklu máli hérna, því blóðflæði eykst líka með góðri hreyfigetu. Forðast skal að nota hita við opnum sárum eða mikilli bólgu. Hita má nota lengur en kulda, en misjafnt er eftir tilfellum hvort mælt sé með 15-20mín, eða allt að 30-90mín.
Hvað gerir kuldinn fyrir svæðið sem er verkjað?
Verkun kuldans á meiðslasvæði er sú að þá dragast æðarnar saman og minnkar því blóðflæði. Með því er hægt að draga mikið úr sársauka þegar bólgur myndast við bráð tilfelli, sérstaklega í kringum liðamót eða sinar. Einnig getur kuldi dregið úr taugavirkni, o.þ.l. sársauka, en þó einungis til skamms tíma. Mikilvægt er að leggja ekki íspoka beint á húðina, þar sem það getur valdið skaða, en best er að hafa þunnt handklæði á milli. Gott er að miða við að kæla í 10-15mín í senn.
Ef við tökum dæmi um tognaðann ökkla. Þá er mikilvægt að kæla vel fyrstu 1-2 sólahringana á meðan bólgan er að hjaðna og sársaukinn oft óbærilegur. Til að auka virknina, þá er einnig hægt að lyfta fætinum upp. Þegar bólgan minnkar og verkurinn minnkar, er skynsamlegt að draga úr kuldanum og bæta frekar inn hreyfingum. Ekki endilega hita, en mikilvægt er að koma blóðflæðinu af stað með léttum hreyfi æfingum. Hér getur kírópraktík einnig hjálpað, en með því að auka hreyfigetuna í ökklanum, eykst blóðflæði og endurheimt gengur hraðar fyrir sig. Mikilvægt er að vera skynsamur í endurhæfingu eftir slík meiðsli, viðhalda hreyfanleika og bæta svo inn léttum æfingum svo að vöðvar og liðbönd byrji að styrkjast á ný.
Alexandra Ósk Ólafsdóttir
Kírópraktor á kandídatsári