Skólataskan fylgir börnum á hverjum degi og getur haft meiri áhrif á líkamsstöðu og hrygg en margir gera sér grein fyrir. Rangt val eða þung og illa skipulögð taska getur valdið aukinni spennu í hálsi, öxlum og baki og jafnvel leitt til langvarandi óþæginda.
Hvernig veljum við rétta skólatösku?
- Tvær breiðar axlarólar – mjóar ólar þrýsta meira á herðar og valda skekkju í líkamsstöðu.
- Stífur bakhluti – styður við hrygginn og dreifir þunganum.
- Miðlungsstærð – taskan á að vera í hlutfalli við stærð barnsins, ekki of breið né of löng.
- Mjaðma- eða brjóstól – hjálpa til við að dreifa þunga af öxlum og baki.
Hvernig röðum við í töskuna?
- Þyngstu bækurnar ættu alltaf að fara næst bakinu.
- Léttari hlutir fara framar eða ofar.
- Forðastu að láta óþarfa hluti safnast saman, tæmdu reglulega.
- Þyngdin á ekki að vera meiri en 10–15% af líkamsþyngd barnsins.
Hvernig er best að bera töskuna?
- Báðar ólar eiga alltaf að vera á öxlunum. Að bera töskuna á annarri öxl veldur ójafnvægi og spennu.
- Stilltu ólarnar þannig að taskan liggi þétt að bakinu og endi ekki neðar en mjaðmirnar.
- Notaðu mjaðma- eða brjóstólina ef hún er á töskunni til að styðja enn betur við.
Rétt taska, rétt röðun og rétt burðaraðferð hjálpa barninu að halda sterkri og heilbrigðri líkamsstöðu. Með þessum einföldu atriðum getum við fyrirbyggt verki og stuðlað að betri vellíðan í skólanum.
Máni Þór Valsson
Kírópraktor