Eyrnasuð (tinnitus) er algengt vandamál sem getur haft veruleg áhrif á lífsgæði einstaklings. Það eru margar ástæður fyrir eyrnasuði, en eitt af því sem oft er litið framhjá er tengingin við stoðkerfið.
Af hverju myndast eyrnasuð?
Í sumum tilfellum getur eyrnasuð verið tengt stoðkerfisvandamálum, sérstaklega ef það er stífleiki í hálsi eða herðum. Þetta getur gerst ef einstaklingur gnístir tönnum á nóttunni, er með spennu í vöðvum háls, herða og axla, eða ef það er skekkja í hryggnum sem veldur ójafnvægi í vöðvunum. Þessi vöðvaspenna getur skapað aukinn þrýsting í kringum innra eyrað og þannig leitt til eyrnasuðs.
Hverjar eru afleiðingarnar?
Eyrnasuð sem tengist stoðkerfisvandamálum byrjar oftast í einu eyranu en getur smám saman færst yfir í hitt eyrað. Þetta getur verið mjög truflandi og haft áhrif á svefn, einbeitingu og almenna vellíðan. Margir upplifa einnig spennutengda höfuðverki eða jafnvel svima samhliða eyrnasuðinu.
Hvernig getur kírópraktík hjálpað?
Í kírópraktískri meðferð er markmiðið að finna og leiðrétta hugsanlegt misræmi í hálsi, herðum eða kjálka sem gæti verið að valda aukinni vöðvaspennu. Með því að minnka spennuna í vöðvunum og bæta hreyfanleika liða er hægt að draga úr óþarfa álagi á innra eyrað og þar með minnka líkur á eyrnasuði.
Ef þú ert að glíma við þrálátt eyrnasuð og ert einnig með vöðvabólgu eða spennu í hálsi og herðum, gæti verið gagnlegt að leita til kírópraktors til að kanna hvort stoðkerfisvandamál séu undirliggjandi orsök. Með réttri greiningu og meðferð er oft hægt að bæta líðan verulega.
Við erum hér til að hjálpa þér að ná betri heilsu!
Máni Þór Valsson
Kírópraktor