Í dag eyða flestir miklum tíma fyrir framan skjái, hvort sem það er í símanum, tölvunni eða spjaldtölvunni. Þessi nýja lífsstílsbreyting hefur leitt til aukinnar tíðni stoðkerfisvandamála, þar á meðal símahnakka, einnig þekkt sem „text neck“ eða „hump“ á ensku.
Hvað er símahnakki og af hverju myndast hann?
Símahnakki er ástand þar sem lítil kúla myndast aftan á hálsi, rétt ofan við herðablöð. Þetta gerist vegna þess að brjóstbak verður of stíft, sem veldur því að höfuð og axlir hallast fram. Þegar líkaminn finnur fyrir óeðlilegu álagi á hryggjarliði reynir hann að vernda sig með því að mynda bólgur og fituvef á svæðinu.
Afleiðingar símahnakka
Þegar símahnakki hefur myndast fara vöðvarnir í hálsi og herðum að vinna á óeðlilegan hátt, sem getur leitt til eftirfarandi einkenna:
- Viðvarandi vöðvabólga
- Verkir í öxlum og efri baki
- Höfuðverkir
- Stirðleiki og minnkuð hreyfigeta í hálsi og efra baki
Hvað er hægt að gera?
Til að vinna á móti símahnakka er mikilvægt að grípa til aðgerða sem miða að því að losa um stífleika í hryggnum og styrkja viðeigandi vöðva. Þetta er hægt að gera með eftirfarandi aðferðum:
- Losun á stífleika í hrygg – Með kírópraktískri meðhöndlun er hægt að auka hreyfanleika í brjóstbaki og minnka þannig álag á hálsinn.
- Vöðvameðferð – Nuddað er á vöðvana í kringum svæðið til að draga úr spennu og auka blóðflæði.
- Réttar æfingar – Með styrktar- og teygjuæfingum er hægt að bæta líkamsstöðu og koma í veg fyrir frekari þróun símahnakka.
Ef þú finnur fyrir einkennum símahnakka er mikilvægt að bregðast við sem fyrst til að koma í veg fyrir langvarandi stoðkerfisvandamál. Kírópraktísk meðhöndlun getur hjálpað þér að endurheimta rétta líkamsstöðu og losna við óþægindi tengd þessum kvilla.
Máni Þór Valsson
Kírópraktor